Útgáfa Íslandsrótar

Íslandsrót

Íslandsrót er efst (eða neðst) í stigveldi trausts í skipulagi um rafræn skilríki, svokölluðu dreifilyklaskipulagi.

Íslandsrót er starfrækt af sérstakri vottunarstöð Íslandsrótar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið rekur og er uppruni trausts í dreifilyklaskipulaginu fyrir Ísland.

Íslandsrót er í eðli sínu skilríki sem eru gefin út af ríkinu, fyrir ríkið og í eigu þess.

Milliskilríki

Íslandsrót er notuð til að gefa út milliskilríki sem eru hugsuð sem vottunarstöð fyrir útgáfu endaskilríkja. Í útgáfu milliskilríkja felst vottun eiganda Íslandsrótar, það er ríkisins, á handhafa milliskilríkjanna.

Endaskilríki

Milliskilríki eru síðan notuð til að gefa út endaskilríki sem notuð eru í rafrænum viðskiptum.

Endaskilríki geta verið persónutengd sem einka- eða starfsmannaskilríki. Rafræn skilríki á debetkortum eru dæmi um slík skilríki. Endaskilríki geta einnig verið ótengd persónum og ætluð til auðkenningar á búnaði, tölvukerfi eða skipulagseiningu, t.d. félagi, sviði eða deild í fyrirtæki.

Traust

Ein helsta forsendan fyrir útbreiðslu rafrænnar þjónustu er að rafræn málsmeðferð njóti sama trausts og hefðbundin málsmeðferð.

Traustið felst í því að öryggi, trúnaður og festa við meðferð mála séu óháð því hvaða aðferð er notuð. Mikilvæg forsenda fyrir því trausti er að aðilar sem stunda rafræn viðskipti séu vottaðir og þær upplýsingar sem miðlað er séu varðveittar. Íslandsrót er uppruni trausts i dreifilyklaskipulagi fyrir Ísland.

Þrjár gerðir skilríkja

Það eru einungis þrjár gerðir skilríkja sem skipta máli í traustkeðju:

  • rót,
  • milliskilríki og
  • endaskilríki.

Rót, eins og Íslandsrót, er ekki notuð til að votta skilríki til endanotenda.


Af Snæfellsnesi
Þetta vefsvæði byggir á Eplica